SPONTASPÁ: Markaðstækifæri í vetur

Hvaða tilfinningu hefurðu fyrir stöðunni í ferðaþjónustu? Ég var spurður að þessu um daginn og það vill svo til að ég hef sterka tilfinningu fyrir óvenjulegri þróun á markaðnum næstu mánuði.

Þetta er eingöngu tilfinning, sem byggist reyndar á ummælum og vísbendingum, en engum gögnum eins og komið er. En ég ætla þó að vera svo djarfur að spá fyrir um haustið og veturinn!

Sjónarhorn ferðamannsins

Á margan hátt hafa viðbrögð ferðamanna verið svipuð víða um heim: fyrst færa bókaðar ferðir, svo fella þær niður, með væntingar um að geta látið ferðadrauminn rætast síðar… og svo hefur sá tímarammi sífellt færst aftar.

Ef við skoðum viðbrögð Íslendinga sérstaklega, þá veit ég um marga sem áttu bókaða ferð um páska og jafnvel aðra um sumarið. Svipað má segja um alls konar viðburði, ráðstefnur og fleira sem halda átti í vor, þeim var fyrst frestað fram á haustið, svo fram á næsta ár.

SPONTASPÁIN*

Þegar ég les í sögur sem ég heyri af breyttum ferðaplönum, þá fæ ég þá tilfinningu að margir munu rekast harkalega á vegg þegar líður á haustið og veturinn.

Jú, það var súrt að fresta skíðaferðinni í vor, sleppa Tenerife og ekkert verður af borgarferðinni með vinahópnum á þessu ári…en hugmyndin var að þetta gerði ekki mikið til ÞVÍ AÐ ÞAÐ YRÐI EITTHVAÐ FERÐALAG BRÁÐUM!

En þegar það liggur fyrir að það verði annaðhvort illmögulegt eða einfaldlega ekkert sérstaklega skemmtilegt vegna sóttvarna…þá stefnir í að þessi “ótimabundna frestun” verði mun lengri.

Það væri bót í máli að geta bókað einhverja tilbreytingu fram í tímann, en það er einfaldlega ekki í boði. Og þó….

Eftirspurn á heimamarkaði

Ég spái því að það bresti á mikil tilbreytingarþrá eftir því sem líður á haustið og veturinn. Fólk þyrstir í að komast út af heimilinu, eftir misharðar útgáfur af sóttkví og samkomubanni. Fólk þyrstir í að hitta vinahópinn. Að fagna stórafmælinu, að halda brúðkaupið, þó það verði ekki 100-manna veislur. Því lífið heldur áfram.

Ég spái því að hér gefist einstakt tækifæri til að mæta þessari tilbreytingarþörf heimamanna í haust og vetur.

Ætlar þú að skapa tilbreytinguna?

Já, þetta eru kannski tómar getgátur og ef ég spyr fólk í dag hvort það ætli að ferðast innanlands í október, þau myndu kannski fæstir svara því játandi. En síðan hvenær hafa Íslendingar planað eitthvað fram í tímann?

Forskotið næst aðeins með því að vera fyrri til og mæta óskum landans, frekar en að bíða og sjá til. Koma með tillögur að einhvers konar dagskrá og afþreyingu fyrir heimamenn.

Möguleikar til útfærslu eru óteljandi, en þetta er spurningar sem ég myndi byrja á:

 1. Hvaða ferðamönnum getur þú þjónað best? (veldu eitt eftirfarandi)
  • Einstaklingar (sem skrá sig á viðburði)?
  • Dekurdvöl fyrir pör?
  • Vinahópar?
  • Fjölskyldur?
  • Fyrirtæki (hvataferðir)?
 2. Skýrt svar við spurningunni: “Hvað er hægt að gera á staðnum?”
 3. Hvernig get ég aukið við upplifun ferðamannsins?
 4. Hverjir eru heppilegir samstarfsaðilar til þess? (Gisting, afþreying, veitingar)

* Ég sæki hér í smiðju prófessors Scott Galloway við NYU Stern háskólann, sem minnir okkur á að tilgangurinn með framtíðarspám er að mynda grunn fyrir hugarflug, skoðanir og innblástur. Þannig fæst skýrari framtíðarsýn og tækifærin skjóta upp kollinum.

Öryggi – Tímasparnaður – Árangur

Náðu athygli með samfélagsmiðlum! Einföldum málið með einkakennslu á þinni tölvu, með þínum gögnum.

“Það hefði eflaust verið hægt að klóra sig fram úr þessu, en það hefði bæði tekið margfalt lengri tíma og eflaust hefði manni yfirsést ýmislegt sem hefði dregið úr árangri herferðarinnar og skapað óþarfa kostnað.
Pétur Helgason, Iceland With A Local

2 thoughts on “SPONTASPÁ: Markaðstækifæri í vetur

Comments are closed.